Heimska huggulegheitanna

Fréttaflutningur fjölmiðlanna var svo einhæfur á þessu máli að mér blöskraði! 

 Um heimsku huggulegheitanna

Lætin í Kaupmannahöfn hafa ekki farið fram hjá mörgum. Í þættinum "Ísland í dag", 2 mars var fjallað um málið og til viðræðna voru mættir Ólafur Teitur Guðnason, blaðamaður og Gunnar Bragi Sveinsson, oddviti framsóknarmanna í Skagafirði. Hafði Ólafur uppi stór orð um þennan uppreisnalýð sem gengst uppí látum og ætti að taka hart á þeim, setja í steininn hið snarasta með hörku og tók framsóknarmaðurinn undir.

Svo kom innslag frá fréttamanni stöðvar 2 á staðnum og ungum íslendingi sem hafði gengið út af krá, og séð reyk af táragasi. Því miður höfðu hvorugur þeirra nokkurn skilning á því hvað var að gerast, frekar en Ólafur Teitur eða Gunnar Bragi, hvað þá þáttastjórnendur.

Þetta er einnig vandamálið í Kaupmannahöfn, fordómar og heimska.

Fyrst skal það leiðrétt að þetta eru ekki einhverjir ofbeldismenn eða útlenskir uppreisnaseggir. Þetta er fyrst og fremst ungt heimilislaust fólk, sem flytur í tóm hús eða þá staði sem það getur hallað höfði því það hefur ekki efni á leigu og stundum ekki mat. Einnig eru þetta vinir, nágrannar, ættingjar og stuðningsmenn.

Að ætlast til þess að þau hætti þessum látum og komi sér bara heim er enn annar misskilningurinn. Mörg þeirra eiga ekkert heimili annað eða hafa aldrei átt. Kannski flúðu sum þeirra að heiman vegna drykkjuvandamála, kynferðislegrar áreitni, ofbeldis eða annars sem ekki verður tíundað hér. Allavega eiga fjölmargir ungir og aldnir í stórborgum Evrópu sér engan samastað og neyðast til að finna sér afdrep einhversstaðar.

Hinsvegar er eignarétturinn mannréttindum þeirra æðri og er þeim ætíð hent út þegar verktakarnir koma með vélarnar. Svo er sagt að þeim sé nær að fá sér vinnu og koma sér heim! .... oft er enga vinnu að fá, hvað þá til staðar heimili eins og flestir þekkja það. Höldum við virkilega að þessir krakkar eiga bara að koma sér heim, hætta þessum fíflaskap, skipta um föt og fá sér eitthvað að borða?

Klókindi stjórnmálamanna eru böl umkomuleysingja.

Deilan snýst nú fyrst og fremst um Ungdomshuset, en það hangir meira á spýtunni. Þetta er gamalt hús, einskonar Alþýðuhús hverfisins í margar kynslóðir. Fólkinu í hverfinu hefur ætíð þótt það eigi þetta hús. En í stað þess að borgin styðji við og efli félagsstarfið, seldu Sosialdemokratar húsið til að losa sig úr vandanum sem fylgdi því. Slíkt var hugleysi þeirra.

En nú er sagt að nýju eigendurnir vilji geta nýtt húsið sitt og allir út. Sniðugt ekki satt? Eignarétturinn skal virtur en borgin þarf ekki að sinna íbúum sínum, nema þeim sem þóknanlegir eru. En hvar var virðing yfirvalda við eignaréttinn þegar sófum, stólum, skápum og öðrum húsgögnum fólksins í Ungdomshúsinu var hent út um gluggana í ruslagáma fyrir neðan og lögreglan bjó um sig í tjaldi fyrir framan húsið til að fara í gegnum aðrar eigur fólksins sem sat í fangelsi á meðan?

Þetta var heldur ekki í fyrsta skipti sem lögreglan í Kaupmannahöfn ræðst inná heimilislaust hústökufólk, lemur, setur í fangelsi, rústar heimilinu og hendir öllum eignum þeirra. Það þykja ekki fréttir hér.

Engar viðræður eru í gangi milli deiluaðila, en til hvers? Húsið skal rifið.

Í Kristianiu voru um tíma viðræður í gangi við lögreglu og samþykkt að hún færi óáreitt inná svæðið til að handtaka hasssölumenn í Pusherstræde. Þeir voru hvort sem er fæstir íbúar þarna, ef nokkrir. Lögreglan sveik það samkomulag og réðst einnig til inngöngu á heimili íbúa, handtóku þá og tóku þar ýmislegt innanstokks. Sögðust vera að leita að þýfi! Þetta var heima hjá vinnandi fólki. Lögreglunni í Kaupmannahöfn er ekki treystandi, enda ráða stjórnmálamenn þar ríkjum.

Margir hafa sagt að yfirvöld í Kaupmannahöfn séu að æfa sig fyrir að hreinsa út Kristianíu. Því hafi Ungdomshúsinu verið stillt upp með þessum hætti.

Ólafar og Gunnarar þessa heims, frétta- og stjórnmálamenn geta ekki leyft sér að fordæma heimilislaust ungt fólk sem ýmist kærir sig ekki um að lifa þeirra lífi, kunna það ekki eða hafa einfaldlega aldrei kynnst því.

Það er ekki það versta í heiminum að lenda í fangelsi Ólafur Teitur Guðnason, því kannski finnst sumum það ekki síður vera fangelsi að lifa þá lygi sem fréttir í sjónvarpi færir okkur.

Kannski er sú hræsni sem sú huggulegheit heimilisins færir manni ekki það líf sem allir kjósa sér. Sem fagmaður er það hugsunarleysi að fordæma atburði í fjarska í fjölmiðli og fordæma af vanþekkingu líf annara.

Lene Espersen, dómsmálaráðherra í íhaldsflokknum tjáði sig um málið og sagði að það væri ekki einræði í Danmörku, en sér fyndist að foreldrar þeirra barna og unglinga sem þarna voru að verki ættu að þrífa upp eftir þau. Þar talar sannur íhaldsmaður.

Á sama tíma og hún og aðrir stjórnmálamenn láta lögregluna þrífa upp eftir sig, finnst henni hún geta sett sig á háan hest og fordæmt það sem hún hefur ekki skilning á.

Fólkið á Nörrebro hefur sagt í viðtölum í útvarpi og sjónvarpi að það hafa enginn læti verið þarna fyrr en lögreglan kemur. Dagsdaglega eru ekki vandræði þarna frekar en annars staðar í Kaupmannahöfn.

Í fréttum á DR1 greinir fréttamaður frá því er hann var staddur við friðsamleg mótmæli við Nörrebro þegar lögreglan réðist fyrirvaralaust á hópinn með barsmíðum og táragasi. Hann talaði síðar við aðra fréttamenn á staðnum og kannaðist enginn þeirra við neinar ögranir hópsins. Þetta var ekki fyrsta skipti sem slíkt gerðist. Dómsmálaráðherra dana hefur gefið þá skipun til sinna manna að nú skuli ekki sýna neina miskunn, en það er ekki ný upplifun umkomulausa í Kaupmannahöfn eða öðrum borgum í Evrópu.

 

Þetta fólk upplifir sig í stríði við yfirvöld. Þau eru annars flokks borgarar, vandamál sem þarf að leysa, en á forsendum yfirvaldanna. Fólkið sem bjó í Ungdómshúsinu var sumt búið að vera þar í nokkur ár. Þeir sem búa í Kristianíu hafa margir búið þar í nokkrar kynslóðir. Íhaldsmönnum finnst mörgum ómögulegt að það geti þrifist öðruvísi samfélag meðal vor, sem lýtur sínum eigin reglum eða bara engum reglum! Það ógnar stöðugleikanum. Og ef einhver skyldi undrast fjölda handtekinna útlendinga í átökunum, þá var það nú bara þannig að það voru nær engir danir (ef nokkrir), sem tóku Kristianiu í upphafi, þeir komu í kjölfarið. Þetta voru svíar, norðmenn, finnar, íslendingar og nokkrir grænlendingar.

Kaupmannahöfn er mikil menningarborg, ein sú fremsta á Norðurlöndum. Áhrif þeirrar menningar ná langt yfir borgarmörkin en yfirvöld þar eiga ekki ein borgarmenninguna. Það er fólkið sem sinnir henni, tekur þátt og nærir þá menningu sem best þrífst sem ber hana uppi. Þessvegna útlendingar úr næstu borg.

Tjón á eignum almennings er óásættanlegt en hvernig er hægt að ætlast til að heimilislaust ungt fólk beri virðingu fyrir eigum annarra, þegar þau hafa aldrei kynnst því hvað það er, heldur oftar hinu. Sem betur fer er látum nú að linna.

Það er gott að breiða öruggur úr sér í sófanum og tjá sig um pakkið, en þar með grefur sá hinn sami undan sáttinni í samfélaginu, því eigið öryggi er þar með á kostnað þeirra sem ekki njóta slíks, þeirra sem mega þar með upplifa fordóma og ofbeldi.

Það hefði mátt gera stórgóða frétt um öryggisleysi ungs fólks sem kýs að búa öðruvísi. Það hefði mátt fjalla um lífssýn þeirra og ofbeldi yfirvalda, sem ráðast á heimili þess, með Guð sér við hlið. Sú umfjöllun hefði gefið okkur meira en vitleysan í "Íslandi í dag" þættinum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Þetta er fín viðbót við umræðu sem var á blogginu hans Hlyns Hallssonar (VG) þar sem við fengum bæði á baukinn fyrir að styðja svona ,,byltingaröfl" og stjórnleysingja, ég var alla vega frekar stolt af því að vera vænd um það, því þessi umræða er mjög frumstæð hér á landi. 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 25.3.2007 kl. 23:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ekki alltaf sammála

Höfundur

Ólafur Sigurðsson
Ólafur Sigurðsson
Höfundur er gaflari, og þannig er nú það.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband